Wednesday, March 25, 2009

Með fjósalykt í hárinu...

Heil og sæl,
héðan frá Kibæk er allt gott að frétta, börnin eru hreint og beint yndisleg og virðist sveitaloftið gera öllum gott.
Flugið var fínt og þrátt fyrir mikla elju eins nemanda komum við ekki auga á hvali úr loftinu! Við lentum í Kaupmannahöfn og höfðum góðan tíma til að finna út hvaðan lestin okkar fór og koma okkur fyrir í glæsilegum lestarvagni. Nemendur nýttu tímann vel til að spjalla, spila, lesa, lúlla og njóta sín.
Það voru spenntir foreldrar sem biðu okkar á lestarstöðinni í Herning, þaðan lá leiðin í skólann þar sem dönsku nemendurnir biðu og fór hver heim með sinni dönsku fjölskyldu.

Þriðjudagurinn var tekinn með trompi. Við lögðum af stað klukkan níu til Árhúsa og var fyrsti áningarstaður við Himmelbjerget, þar "klifum" við upp restina af hæðinni og getum því sagt með smá ýkjum að við höfum farið í fjallgöngu. Frá hæðinni lá leiðin að sumarhúsi drottningarinnar í Marselisborg, þrátt fyrir að ungar dömur úr hópnum hafi bankað á dyrnar í von um að fá smá yl í kroppinn og kannski kakósopa þá var enginn heima. Heyrst hefur að blátt blóð sé þó væntanlegt í hús í næstu viku. Eftir samlokuát og vatnsdrykkju var haldið inn í miðbæ Árhúsa, þar sem við skoðuðum safn í anda Árbæjarsafns, safnið heitir Den gamle by og hægt er að skoða myndir frá staðnum á heimasíðu þeirra http://www.dengamleby.dk/ frá safninu lá leið okkur á listasafnið Aros sem þykir með fallegri söfnum í landinu...þegar við komum inn var okkur vísað út þar sem öryggismenn stóðu fastir á því að einn nemandi hafi hegðað sér ósæmilega og því var hópnum meinaður aðgangur. Það má deila um réttmæti þessarar brottvísunar sem varð til þess að nemendur fengu auka klukkutíma í verslunum, sem þeir grétu ekki.
Verslanir og hamborgarastaðir voru heimsóttir næstu klukkutímana og síðan hittist hópurinn við dómkirkjuna þaðan sem leiðin lá til handboltahallar í Silkeborg. Þar biðu okkar stuttermabolir merktir liði Skern og klædd í réttum litum hvöttu nemendur þá grænklæddu áfram. Hvort sem það voru hvatningaróp ungmeyjanna eða yfirburðir liðsheildar Skernmanna þá unnu þeir leikinn örugglega. Eftir leik fengum við að fara niður á völlinn, spjalla við leikmenn og fá eiginhandaráritanir og myndir. Stelpurnar mátuðu nöfn sín við eftirnöfn leikmanna og má það teljast gott ef þær brosa jafn skært á brúðkaupsmyndinni sinni sem og með þessum íþróttagoðum. Sæl, þreytt og kát keyrðum við til baka og voru allir komnir í sín hús um hálf ellefu.

Í dag hittumst við hress klukkan hálf níu og hjóluðum fimm kílómetra til að skoða fjós þar sem búa um 260 kýr og mjólkaðir eru 6.300 lítrar af mjólk hvern dag. Síðan hjóluðum við til baka með vind í baki og dönsku nemendurnir sýndu þeim íslensku skólann sinn. Nú eru nemendur líkast til að þvo af sér fjósalyktina og gera sig tilbúin til verslunarferðar til Herning.

Allir eru kátir og glaðir og senda kveðjur heim.
Kærlig hilsen,
Ása Marin og Sigga Lísa.
e.s.........myndir væntanlegar fyrir heimferð....

No comments:

Post a Comment